143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

launakjör og yfirvofandi verkfall framhaldsskólakennara.

[16:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður skilur að kjarasamningaviðræður fara ekki fram í þingsal heldur eru þær, eins og hv. þingmaður benti reyndar réttilega á, á forræði fjármálaráðherra og samninganefndar ríkisins sem sitja nú og hafa setið á fundum með samninganefnd kennaranna. Ég mun því ekki tjá mig neitt umfram það nema bara almennt.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns varðandi möguleika á því að hér skelli á verkfall. Auðvitað vonum við öll að svo verði ekki. Ég heyri ekkert annað en að bæði kennarar og þeir sem sitja í samninganefndinni séu allir að reyna að finna lausn á þessari erfiðu deilu til að koma í veg fyrir verkfall. Ég veit að það er kappsmál allra sem þar sitja.

Hvað varðar þá spurningu sem snýr að hvítbókargerð, enn á ný, mun ég leggja fram áhersluatriði sem snúa að tveimur þáttum, annars vegar að læsi, sérstaklega í grunnskólunum, og hins vegar námsframvinduna á framhaldsskólastiginu. Þetta eru þeir þættir sem ég mun leggja sérstaka áherslu á. Ég hef nú þegar átt fundi með ýmsum varðandi bókina sjálfa en hún er fyrst og síðast skrifuð af starfsmönnum mínum í ráðuneytinu. Síðan þegar kynningu á henni er lokið þarf að vinna framkvæmdaáætlun á grundvelli hennar. Hún er hugsuð sem umræðugrundvöllur til að kalla fram sjónarmið sem síðan er hægt að byggja á í framkvæmdaáætlun.