143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

samkomulag um þingstörf.

[16:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég nefndi það í lok síðustu viku, þegar ég var orðin langeygð eftir því að fá fundarboð frá hæstv. forsætisráðherra, að boltinn væri í hans höndum, að það ylti á honum hvort í þingsalnum yrði stríð eða friður í þessari viku.

Ég hef ekki heyrt neitt í hæstv. forsætisráðherra. Hann hefur ekki haft samband við mig af neinu tagi en ég fékk hugskeyti frá forseta þingsins um að það ætti mögulega að vera fundur hér á eftir með formönnum stjórnarflokkanna.

Nú langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort honum finnist það vera góð leið að hunsa fólk, að hunsa samkomulagið sem var gert í þinginu í þarsíðustu viku, að láta eins og aðrir þingmenn og minni hlutinn eða stjórnarandstæðingar eins og við erum stundum kölluð séu ekki til. Er það til þess fallið að við náum sátt eða friður verði um þetta mál?

Ég heyrði í dag að það væri skoðun hæstv. forsætisráðherra — og langar að fá úr því skorið — að það mál sem er á dagskrá strax á eftir þessum lið þingstarfa væri þingmál sem ætti að fá hefðbundna meðferð í þinginu og í raun væri ekkert tilefni til þess að ræða það, hvorki á milli formanna flokkanna né á milli þingmanna, heldur leyfa því bara að fara sína leið. Er það skoðun og afstaða hæstv. forsætisráðherra?