143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

samkomulag um þingstörf.

[16:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef engan hunsað. Það mál sem hér um ræðir er komið til þingsins, komið til umræðu í þinginu. Þegar um svo stórt og umdeilt mál er að ræða er hins vegar sjálfsagt að menn reyni að finna út úr því hvernig best megi haga málsmeðferðinni svo að hún sé sem líklegust til að skila sem mestum árangri og sem flestir verði ánægðir. Það er yfirleitt markmið mitt að sem flestir séu glaðir. Það geta ekki allir orðið glaðir, en best er að standa þannig að málum að sem flestir séu ánægðir.

Ríkisstjórnin þurfti að svara því fyrir sitt leyti, m.a. gagnvart Evrópusambandinu, hvað hún ætlaði sér með umsóknina sem hún erfði frá síðustu ríkisstjórn, umsókn sem ákveðið var að leggja fram án þess að spyrja þjóðina. Ríkisstjórnin hefur svarað því fyrri sitt leyti. Nú er málið, framhald þess og úrvinnsla hjá þinginu og eðlilegt að þingið, þingflokksformenn og aðrir, ræði hvernig best megi haga vinnu við það til að það sem skili sem bestum árangri og sem flestir verði ánægðir. Ég er tilbúinn að leggja mín lóð á vogarskálarnar til að ýta undir að sú verði raunin þó að það sé nýbreytni að menn ætlist til þess að formenn flokka fari að hlutast til um það sem er komið (Gripið fram í.) til þingsins. (BirgJ: … væla.)

Við munum eftir fjölmörgum (Gripið fram í.) dæmum um það á síðasta kjörtímabili að menn höfðu miklar skoðanir á stórum og umdeildum málum. Það var ákveðið verklag við hvernig þau voru unnin. Reynt var að leita leiða til þess að ná saman, því miður allt of oft með litlum árangri, en það var reynt að leita leiða í þinginu til að menn næðu saman um þau. Það var svo við lok þingstarfa, þegar allt var í hnút, að formenn flokkanna hittust loks, fyrrverandi (Forseti hringir.) forsætisráðherra og oddvitar stjórnarflokkanna, og féllust á að ræða við formenn til þess að reyna að ljúka (Forseti hringir.) þingstörfum.