143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

samkomulag um þingstörf.

[16:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ljótt að segja ósatt. Hæstv. forsætisráðherra veit það jafn vel og ég að fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, boðaði okkur ítrekað á fundi til samráðs og upplýsinga, t.d. varðandi Icesave, þannig að það er ósatt að það hafi einungis verið undir lok síðasta þings.

Mig langar að minna hæstv. forsætisráðherra á að forsendan fyrir því að þetta mál fór á dagskrá í þarsíðustu viku var að haft yrði samráð og samvinna á milli formannanna um framhald málsins. Eina ástæðan fyrir því að þetta fór á dagskrá var út af því að hæstv. forsætisráðherra átti að eiga fund með öðrum formönnum til að finna lausn á þessu máli.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort það fari ekki betur á því að skipt verði um ríkisstjórn en þjóð og við förum í þjóðaratkvæðagreiðsluna sem hefur verið lofað ítrekað.