143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

samkomulag um þingstörf.

[16:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að svara þessari undarlegu viðbót í lok fyrirspurnar hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Hins vegar var hv. þingmaður mjög afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni hér, þegar verið var að ræða skýrsluna um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið, að heiðarlegast og réttast væri að slíta þá þegar viðræðum við Evrópusambandið. (BirgJ: Ég bað um svör.) Þegar hins vegar kemur fram tillaga þess efnis þá hefur hv. þingmaður skipt um skoðun rétt eins og hv. þingmaður virðist (Gripið fram í.) algerlega hafa skipt um skoðun varðandi — (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) — þá fundi sem hún kallaði sýndarfundi með fyrrverandi forsætisráðherra sem væru ekki til að ræða skipulag þingstarfa. Þvert á móti var skipulag þingstarfa rætt af þingflokksformönnum þangað til menn sömdu loks um þinglok. Það að halda því fram að gert hafi verið eitthvert samkomulag um að þetta mál kæmist á dagskrá vegna þess að formenn flokkanna ætluðu að hittast er bara ekki rétt. Þetta mál er á dagskrá vegna þess að það er sett á dagskrá … (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa hæstv. forsætisráðherra næði til að ljúka máli sínu.)

… af forsætisnefnd.