143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra.

[16:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi upprifjun hv. þingmanns á fyrirspurnum annarra þingmanna vísa ég til þeirra svara sem ég gaf við þeim fyrirspurnum. Hvað hins vegar varðar þá spurningu hv. þingmanns hvort stefna ríkisstjórnarinnar nú sé ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem voru gefnar fyrir kosningar get ég svarað því afdráttarlaust að hún er það að öllu leyti. Við höfum ekki dregið dul á það að við værum andsnúin aðild Íslands að Evrópusambandinu. Menn gáfu sér hins vegar tíma til þess að skoða það og meta hvaða möguleikar væru í stöðunni. Forustumenn Evrópusambandsins voru mjög afdráttarlausir í þeim efnum, m.a. varðandi spurninguna um það hvort ríkisstjórn sem ekki vildi inn í sambandið þar sem hvorugur flokkanna vildi inn, gæti verið í viðræðum um aðgang að sambandinu. Það töldu menn algjörlega óraunhæft og lái þeim hver sem vill og hver sem kynnir sér það út á hvað viðræður við Evrópusambandið ganga raunverulega út á.

Með öðrum orðum, virðulegur forseti, málin hafa svo sannarlega skýrst. Þar sem menn hugsanlega, það má hugsanlega gagnrýna menn fyrir það, hefðu mátt gefa sér fyrir langa löngu, bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu, er núna orðið algjörlega borðleggjandi. Það er ekki hægt að vera í viðræðum um að reyna að komast inn í Evrópusambandið ef menn vilja ekki inn í Evrópusambandið.