143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra.

[16:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég fór nú ekki leynt með það í umræðum á síðasta kjörtímabili hversu fáránleg sú staða væri sem síðasta ríkisstjórn var í þar sem a.m.k. annar stjórnarflokkurinn var fylgjandi aðild eða réttara sagt fylgjandi viðræðum, ég fór ekki leynt með að það væri staða sem gengi ekki upp. Stækkunarstjóri sambandsins var raunar sammála þegar hann heimsótti þingið í lok árs 2012 og útskýrði að það yrði að verða mikil breyting í næstu kosningum, ef það ætti að vera raunhæft að halda viðræðum áfram þyrftu menn að fá ríkisstjórn sem einsetti sér að komast inn í sambandið og ætlaði að draga þann vagn.

Hins vegar var mikilvægt að fá það endanlega staðfest, fá það upp á borðið hvað felst í því að vera í viðræðum við Evrópusambandið, vegna þess að hér hefur orðið lífsseig sú umræða að hægt sé að fara í viðræður, sækjast eftir því að ganga í sambandið til þess eins að leita tilboða, sjá hvað Evrópusambandið sé tilbúið að bjóða til þess að reyna að ná landinu inn í sambandið (Forseti hringir.) sem sækist eftir því að komast inn.