143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Mér skilst að nú klukkan 17.30 standi til að halda þann formannafund sem hér hefur komið til umræðu og er það fagnaðarefni. En ég ítreka þá afstöðu að það er fullkomlega óeðlilegt að hafa umræður í þingsal á sama tíma og ekki síst þegar dagskrármálið er einhver stærsta ákvörðun í málefnum Íslands á síðari tímum. Það er þess vegna skýlaus krafa mín að gert verði hlé á fundinum meðan formannafundur fer fram.

Ég tel einnig rétt að vegna þess með hvaða hætti fundarboðið ber að héðan úr forsetastóli á miðjum þingfundi, þá gefist stjórnarandstöðunni ráðrúm til þess að bera saman bækur sínar og undirbúa sig efnislega í a.m.k. stundarfjórðung eða svo fyrir þau fundarhöld þannig að aðilar komi undirbúnir til fundar, því að ef enginn undirbúningur á að vera fyrir slíkan fund er auðvitað hætta á því að lítið verði úr honum og að til hans sé boðað kannski fyrst og fremst vegna sýndarmennsku því að stjórnarliðið viti upp á sig skömmina að hafa svikið enn einn samninginn.