143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta þakklæti mitt til virðulegs forseta um allan hans atbeina í þessu máli, að róa hér umræðuna og taka vel í mál þeirra sem vilja vera hans liðsmenn í því. Mér finnst það til algjörrar fyrirmyndar og ég vil þakka sérstaklega fyrir það.

Um leið vil ég segja, virðulegur forseti, að ég hef af því nokkrar áhyggjur hvernig hæstv. forsætisráðherra svaraði áðan spurningum hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og fleiri um það hvernig hann ætlaði að koma að einhvers konar sáttafundum hér á eftir. Mér fannst hann draga það fram eina ferðina enn og það er ekki í fyrsta skiptið, virðulegur forseti, sem það gerist úr munni hæstv. forsætisráðherra að hann spottar samkomulag og þykist ekki kannast við það. Hann sagði sjálfur: Það var ekkert samkomulag. En það var nú bara virðulegur forseti sjálfur sem las hér upp úr ræðustól Alþingis 27. febrúar: „Forseti vonar að hann hafi gert fyllilega grein fyrir þessu samkomulagi eins og það blasti við …“. (Forseti hringir.)

Svona var það. Það er áhyggjuefni, virðulegur forseti, að þetta sé (Forseti hringir.) fundurinn sem búið er að kreista úr hæstv. forsætisráðherra og að hann sé svona (Forseti hringir.) innstilltur á þann mikilvæga fund.