143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þar sem ég er fyrst á mælendaskrá fannst mér eiginlega við hæfi að koma hér upp og greina frá því að mér finnst þetta svolítið skrýtið, þetta er í annað skiptið sem ég er að fara að tala um þessi Evrópumál á mjög furðulegum tímapunkti. Ég talaði klukkan tíu eða hálfellefu á mánudegi um skýrsluna en þá var búið að leggja fram þingsályktunartillöguna þannig að ræðan sem ég hélt varð hálffurðuleg.

Mér finnst það sama vera í gangi núna. Hvað mun gerast á fundinum sem verður haldinn á eftir? Ef virðulegur forseti gerir mér að tala þá geri ég það auðvitað, en þá krefst ég þess líka að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir, þeir hafa gott af því að heyra hvað ég hef að segja. Ég er líka tilbúin að bjóða stjórnarliðum að fara fram fyrir mig í röðina. En ég er ekki sátt við þetta. Ég kann vel að meta allt sem hæstv. forseti hefur gert til að liðka fyrir, ég geri ekki lítið úr því, en mér finnst þetta nett móðgun, ég verð að segja það. Mér finnst eins og maður sé eins og uppfyllingarefni í þessum ræðustól.