143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að taka aftur til máls um þetta atriði en geri það vegna þess að virðulegum forseta mislíkaði við mig þegar ég kom hingað upp síðast.

Mig langar að útskýra betur fyrir virðulegum forseta og þjóðinni af hverju ég tel ekki boðlegt að umræðan hefjist núna. Ég ætla að nefna dæmi. Ég var á fundi í hádeginu með fulltrúum allra flokka, þar á meðal fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem sagði að mögulega yrði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um þá tillögu sem við erum að ræða núna, að henni samþykktri, og hún borin undir þjóðina. Þegar við vitum ekki meira en þetta um hvernig stjórnarflokkarnir ætla að leggja upp málið er það ekki tækt til umræðu. (BirgJ: Heyr, heyr!) Hæstv. fjármálaráðherra er sjálfur búinn að segja að hann ætli að finna farveg fyrir aðkomu þjóðarinnar. Verðum við ekki bara að leyfa mönnum að fá að segja við aðra þingmenn hvað þeir meina? Hæstv. forsætisráðherra er ekki einu sinni í salnum. Hann er einn til frásagnar um miklar meintar (Forseti hringir.) kröfur Evrópusambandsins (Forseti hringir.) o.s.frv.