143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[17:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég greini óánægju með það af hálfu forseta að hér skuli þingmenn ræða fundarstjórn forseta. Ég vil segja við hæstv. forseta og þingheim að svona lítur ósætti út. Við erum að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að við erum ósátt. Ósættið á sér rætur og ástæður. Það var gert samkomulag. Það var ekki virt. Það er mjög mikið áhyggjuefni.

Ósætti hefur alltaf í för með sér tímaeyðslu. Mér finnst erfitt að sitja undir því að við sem erum hér að ræða fundarstjórn forseta séum einhvern veginn ekki með sáttavilja í málinu. Við biðum í heila viku, ellefu daga satt að segja, eftir að fundur yrði boðaður um sættir í þessu stóra deilumáli.

Síðan verð ég að lýsa því að mér finnst það líka tímaeyðsla að ræða þetta stóra deilumál á meðan það er í öðrum farvegi. Á meðan formenn stjórnmálaflokka ætla að fara að ræða það getum við rætt (Forseti hringir.) eitthvað annað í þingsal, finnst mér.