143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki sagt að ég hafi bundið miklar vonir við þennan fund með formönnum flokkanna. Því miður virðist lítið hafa komið út úr honum annað en það að ómöguleikinn er alltaf til staðar. Maður hefur meiri skilning á því af hverju hæstv. forsætisráðherra sá ekki ástæðu til að koma til landsins á þessum ellefu dögum til að leita lausna, vera lausnamiðaður og leggja eitthvað gott til þessara mála ef hann hefur ekki lagt neitt til málanna á fundinum eins og manni heyrist á þeim sem sátu fundinn. Mér finnst það vera, eins og öðrum þingmönnum, mjög dapurt að menn lesi ekki betur í þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu gagnvart þessu máli. Menn verða að finna þann farveg (Forseti hringir.) að fleiri en stjórnarliðar geti sætt sig við niðurstöðuna.