143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þessi hegðun hæstv. ríkisstjórnar og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra gefur manni þau skýru skilaboð að það sé ekkert sem stjórnarandstaðan geti sagt eða gert sem gæti hugsanlega fengið hæstv. ríkisstjórn, og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra, til þess að íhuga nokkra einustu breytingu á málinu. Samningsviljinn er nákvæmlega enginn og þá sjaldan sem eitthvað virðist komast í höfn þá er það undantekningarlaust að því er virðist svikið, undantekningarlítið í það minnsta.

Ég er með eina hugmynd sem gæti til dæmis verið einhver umræðugrundvöllur, þ.e. að umorða þingsályktunartillöguna þannig að formlegt hlé yrði á aðildarviðræðunum í staðinn fyrir að draga til baka umsókn Íslands. Það er einhver ágreiningur um hvað það þýði, en af hverju er ekki hægt að koma til móts við það? Ef þetta orðalag skiptir engu máli, hvers vegna er svona hræðileg hugmynd að koma til móts við það þannig að það sé ekki öllum þingum framtíðarinnar líka (Forseti hringir.) gert ókleift að halda áfram með umræðuna, (Forseti hringir.) hvort sem það er fyrir eða eftir þjóðaratkvæðagreiðslu? Á hverju stendur, hvers vegna er ekki hægt að tala (Forseti hringir.) við okkur um þetta?