143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera þreytandi að við komum hér hvert á fætur öðru og biðjum um einhverjar skýringar á því hvernig þinghaldi eigi að verða háttað en sumt af því sem við erum að biðja um snýr að hæstv. forseta og forsætisnefnd. Það er einmitt um hvernig með málið á að fara í þinginu. Eins og ég segi var gert samkomulag að hluta til um ræðutíma á þeim þremur tillögum sem hér eru á dagskrá en við höfum ekki fengið neina staðfestingu á að því verði breytt vegna þess að samkomulagið er fallið. Miðað við þá ræðu sem hæstv. utanríkisráðherra flutti við upphaf málsins í sambandi við skýrsluna og raunar þegar þessi tillaga kom fram er mikilvægt að ræða málið ítarlega og helst þyrfti að eiga sér stað opinber umræða. Síðan er búið að setja okkur í þá stöðu að loka okkur inni með það að hér eigi að fjalla um þrjár tillögur og það sé eitthvert samkomulag um að það eigi bara að ræða þá fyrstu, hinar fari með í nefnd og það verði þá 15 mínútur á hvern þingmann í svona stóru máli. (Forseti hringir.) Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að hæstv. forseti ræði það í forsætisnefnd (Forseti hringir.) hvort ekki sé hægt að breyta þessu og tryggja að menn fái hér góða aðkomu að því að ræða málin.