143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór yfir ýmislegt en ég ætla að spyrja hv. þingmann þriggja spurninga.

Í fyrsta lagi. Finnst hv. þingmanni — nú veit ég að hv. þingmaður er duglegur þingmaður, les sér vel til, kynnir sér hlutina vel — boðleg umræðan um það að óljóst sé hvað er að vera í Evrópusambandinu? Þetta er fullkomlega séríslensk umræða. Hv. þingmaður veit eftir að hafa skoðað skýrslu, þó það hafi ekki verið neitt annað en skýrsla sú sem liggur hér fyrir þinginu sem við erum að ræða, að það er fullljóst hvað felst í því að vera í ríkjabandalaginu, Evrópusambandinu. Finnst hv. þingmanni boðlegt, hvað sem henni finnst um Evrópusambandið og vinnubrögðin, að tala með þeim hætti?

Í öðru lagi. Hvað telur hv. þingmaður að muni gerast ef viðræðum verði slitið? Telur hv. þingmaður — ég bara trúi ekki að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar en ég vil fá það á hreint — að ef kæmi hér ný ríkisstjórn sem mundi vilja ganga í Evrópusambandið og mundi sækja um aðild, að Evrópusambandið mundi þá ekki vilja fá Ísland inn í Evrópusambandið og með hvaða rökum þá?

Í þriðja lagi. Telur hv. þingmaður það einhverja sérstaka áætlun í efnahagsmálum að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Hv. þingmaður hefur lesið skýrslu sem liggur fyrir þinginu og veit það mætavel að mjög mismunandi aðstæður eru hjá þeim 28 ríkjum sem eru í Evrópusambandinu; þeim hefur gengið vel, þeim hefur gengið illa, það er ekki til neitt sem heitir evruvextir eins og sumir hafa haldið fram, það er engin sameiginleg verðbólga, það er ekkert sameiginlegt atvinnustig. Telur hv. þingmaður það vera sérstaka áætlun í efnahagsmálum að sækja um aðild að Evrópusambandinu?

Ég bið hv. þingmann að svara þessum þremur spurningum.