143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo ósammála hv. þingmanni að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.

Mér finnst það vera gjaldmiðilsstefna að skoða hvort upptaka evru sé möguleg leið en ég spyr: Hver er stefna stjórnvalda? Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að stjórnvöld móti sér gjaldmiðilsstefnu og ég vona að verið sé að vinna í því máli. Ég veit ekki hver gjaldmiðilsstefna stjórnvalda er eins og staðan er í dag nema nota krónuna áfram í höftum. Mér finnst það ekki ásættanlegt.

Hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu? Við sem erum frekar hlynnt Evrópusambandinu teljum að margir kostir geti falist í því fyrir Ísland að ganga þangað inn en að sjálfsögðu vil ég fá að sjá samninginn. Ef þeir eru allir eins, eins og bent hefur verið á hér í ræðustól, þá skulum við bara þýða samninginn sem Króatía gerði og dreifa honum hérna. Þá getur íslenska þjóðin séð hvernig samning við fáum. Þeir eru þá væntanlega allir eins, samningarnir. (Gripið fram í: Hann er ekki íslenskur.)

Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að (Forseti hringir.) þessi skýrsla taki af skarið um allt sem snýr að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu. Ég vil bíða eftir skýrslu (Forseti hringir.) sem aðilar vinnumarkaðarins eru að vinna og taka þá umræðu.