143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún kom víða við. Mér þótti mjög athyglisvert og ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir að skoða kosningakerfið og valdahlutföllin í því ljósi. Það er auðvitað þannig að 51% kaus stjórnarliðana og 49% hina, þannig eru hlutföllin þó að þingstyrkurinn sé allur stjórnarmegin.

Hv. þingmaður kom inn á þá kröfu sem er háværari núna en oft áður að fólkið í landinu komi að ákvörðunum í stórum málum. Samkvæmt könnunum vilja rúmlega 80% þjóðarinnar fá að segja skoðun sína á því hvort slíta eigi viðræðum eða ekki. Það eru næstum því allir. 50 þús. manns hafa skrifað undir áskorun um að þessi tillaga utanríkisráðherra verði dregin til baka og þjóðin fái að segja til um það hvort eigi að slíta viðræðum eða ekki.

Ég vil velta því upp með hv. þingmanni hvar ómöguleikinn liggi í rauninni, hvort ríkisstjórn sem ekki finnur leið til að fara að þjóðarvilja þurfi ekki að segja af sér og hvort það sé ekki ómögulegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera ekkert við þeirri háværu kröfu sem er í samfélaginu. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þingvinnuna við slíka tillögu þegar mótmælin eru svona hávær í samfélaginu?