143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda. Varðandi það hvort hægt sé að kíkja í pakkann þá er það nú þannig að 28 þjóðir hafa farið í aðildarviðræður og langflestar borið samninginn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef ekki þyrfti að kíkja í pakkann þyrfti ekkert að fara í aðildarviðræður, pakkinn væri þá bara afhentur, hann væri eins fyrir alla. Ég skil ekki þá umræðu. Mér finnst svo margt í þessari umræðu hafa verið svo furðulegt eins og það að á síðasta kjörtímabili höfum við átt að vera í einhverju rosalegu aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Er þá verið að „afaðlaga“ núna? Kannski einhver stjórnarliði gæti komið upp og gæti svarað því. Í hverju felst afaðlögunin?

Við höfum verið fjögur ár í þessari aðlögun, einhvers staðar hlýtur þá að þurfa að afaðlaga í dag. Hvar ætli það sé? Einnig var talað um það, og jafnvel auglýsingar um það í blöðum, að ungir menn þyrftu að ganga í Evrópuherinn. Það var beinlínis auglýst. Þetta eru dæmi um á hvaða stigi þessi umræða er, búið að opna kaflann um varnarmál og loka honum. Nú liggur ljóst fyrir að íslensk ungmenni þurfa ekki að ganga í Evrópuherinn.

Það er svo margt sem hefur verið sagt sem er svo víðáttuvitlaust — afsakið orðbragðið, virðulegi forseti — að ég treysti ekki orðum þeirra sem eru á móti Evrópusambandinu um það hvernig samningurinn verður. Ég vil bara fá að sjá hann sjálf. Ég spyr enn og aftur: Treysta stjórnvöld þjóðinni ekki fyrir því að fá að sjá samninginn? Er hún of vitlaus til að skilja samninginn? Þjóðin gat kosið um Icesave-málið sem er gríðarlega flókið. Getur hún ekki kosið um samning um aðild að Evrópusambandinu eins og fjölmargar Evrópuþjóðir hafa gert? Er henni það ofviða?