143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hingað aftur vegna þess að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson segir að við eigum að láta þessi mál í nefnd. Skil ég það rétt að hv. þingmaður sé að tala um að við eigum bara að ræða eina af þremur tillögum og henda hinum inn án umræðu? Það er ekki þingleg meðferð. Við sömdum um að það kæmi til greina vegna þess að við ætluðum að ljúka málinu með ákveðnum hætti. Það samkomulag hefur hrunið og þá krefst ég þess að við fáum þessar þrjár tillögur ræddar og þær fari allar saman í nefnd. Það þýðir að hver ræðumaður fær tíu mínútur um hverja tillögu plús fimm mínútur og fáum að ræða það í þinginu eins og lög gera ráð fyrir.

Þetta er forgangsmálið hjá ríkisstjórninni. Þá tökum við þessi mál öll þrjú í einu, sem sagt hvert á fætur öðru. Ég er eingöngu að spyrja hæstv. forseta: Verður þetta þannig eða ekki? Þegar ég set mig á mælendaskrá og ætla að fá að ræða þetta mál vil ég vita það. Það getur varla verið ósanngjarnt vegna þess að hæstv. forseti hefur vald yfir stjórn fundarins, (Forseti hringir.) getur tekið tvær tillögurnar út af dagskrá þannig að þær fari umræðulaust í nefnd og meiri hlutinn afgreitt þær svo með hraði. Þess vegna (Forseti hringir.) erum við að spyrja um þessa hluti. Við komum aftur og aftur af því að við fáum ekki svör.