143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég var á áhugaverðum fundi í morgun hjá Stofnun stjórnsýslufræða á Grand hótel og þar vorum við að ræða mál sem er mál málanna. Það ætti að vekja meiri eftirtekt hér á hv. Alþingi því að ég finn að almenningur er orðinn meira meðvitaður um mikilvægi stóra málsins sem er einfaldlega ríkisfjármál. Það er stóra málið.

Hér tökumst við á um ýmis mál og við erum ekki alltaf sammála. Eitt ættum við þó að vera sammála um og það er að agi sé í opinberum fjármálum. Nú kann einhver að segja: Eru þetta ekki einhverjir draumórar? Þetta eru engir draumórar, þau lönd sem við berum okkur saman við eru í þeirri stöðu. Alveg sama hvar menn eru í stjórnmálum, til hægri, vinstri eða á miðjunni, þá er sátt um að það eigi að vera agi og ráðdeild í opinberum fjármálum. Menn deila um hvort það eigi að vera háir eða lágir skattar og hvernig eigi að forgangsraða, en menn eru sammála því að agi eigi alltaf að vera til staðar.

Við erum búin að stíga fyrstu skrefin hvað þetta varðar, en við eigum eftir að taka mörg skref ef við ætlum að ná þeim árangri sem við erum í það minnsta í orði kveðnu sammála um. Þar tek ég upp vinnu frá fyrri fjárlaganefnd og við í núverandi meiri hluta í hv. fjárlaganefnd höfum verið að skoða reynslu frænda okkar, Svía. Þeir voru á svipuðum stað og við vorum fyrir rúmlega 20 árum. Þeir ákváðu, ekki bara stjórnarliðar heldur stjórnarandstaða, embættismenn, fjölmiðlar og almenningur, að snúa blaðinu við. Ég hvet okkur (Forseti hringir.) til að skoða reynslu þeirra og ná samstöðu um þetta stóra mál.