143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þennan dagskrárlið til að vekja sérstaklega máls á stöðu heilsugæslunnar í landinu og þá ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að svo sé komið að ríkisstjórn og Alþingi verði að hlusta af alvöru á þau varnaðarorð sem berast nú úr þeim ranni.

Í fyrsta lagi vísa ég í orð forsvarsfólks heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem fram hefur komið í fjölmiðlum og lýst yfir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði sem heilsugæslunni er gert að mæta á þessu ári.

Í annan stað vísa ég í varnaðarorð formanns Félags heilsugæslulækna og annars forsvarsfólks heilsugæslulækna í sömu veru.

Í þriðja lagi vísa ég í orð einstakra lækna sem hafa kveðið sér hljóðs á opinberum vettvangi, nú síðast Már Egilsson, ungur læknir, sem skrifaði opið bréf til ríkisstjórnar og Alþingis þar sem hann segist óttast að það sé verið að ganga að heilsugæslunni dauðri, eins og hann orðar það, og bendir á að með niðurskurðinum sem heilsugæslunni er gert að sæta og mæta sé verið að gera heilbrigðisþjónustuna dýrari þegar upp er staðið.

Þá kem ég að fjórða aðilanum sem hefur tjáð sig. Það er Landspítalinn, það er bráðamóttakan á Landspítalanum sem segist ekki lengur ráða við álagið. Hvers vegna? Forsvarsfólk Landspítalans á þessu sviði segir: Jú, það er vegna þess að það er þrengt svo að heilsugæslunni að álagið verður fyrir vikið meira hjá okkur, fólk leitar til okkar á bráðamóttökuna. Þetta er því samofið.

Ég hef heyrt þær raddir, sérstaklega frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að ráðið sé að einkavæða. (Forseti hringir.) Það er ekkert ráð. Við getum tekið þá umræðu. Það vantar meiri (Forseti hringir.) fjármuni í heilsugæsluna og við eigum að taka þau (Forseti hringir.) varnaðarorð sem okkur berast alvarlega (Forseti hringir.) og bregðast við þeim.