143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég er farinn að hafa svolitlar áhyggjur af því að hið stórgóða mál sem kennt hefur verið við bjarta morgna, seinkun klukkunnar, sem er í raun leiðrétting klukkunnar, muni daga uppi í hv. allsherjarnefnd. Mig langar til að forvitnast um störf nefndarinnar hvað það góða mál varðar. Ég er ekki að saka nefndina um sofandahátt í þessu máli, einfaldlega að vekja hana til vitundar um að hér er um stórgott mál að ræða. Ég er ekki að hvetja nefndina til þess að fara að vakna fyrr á morgnana til að vinna það, en það ætti ekki að þurfa mikinn tíma á dagskránni.

Málið hefur vakið mikið umtal, mikla eftirvæntingu, og hefur verið nefnt sem mál sem gæti verið mjög heppilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknu ákveðnu tilraunatímabili þar sem þjóðin tæki sig saman um eitt eða tveggja ára skeið og prófaði að leiðrétta klukkuna þannig að við mundum njóta fleiri bjartari morgna.

Ég vona að engan skugga hafi borið á samstarf nefndarmanna í þessu máli og að ekki reynist þörf til þess á lokastigum þingsins að fara að ræða þetta mál fram á nótt eða gera það að einhverju myrkraverki. Þetta er þvert á móti mál sem við eigum að draga fram í dagsbirtuna og ef skoðanir eru skiptar í því ættu þær bara að fá að heyrast og við útkljáum málið hér í þingsal.

Ég vil því vekja nefndina til vitundar um þetta fína mál og hvetja hana til að setja það á dagskrá og afgreiða það hér inn í þingsalinn. Takk fyrir.