143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór yfir þær tölur sem nú liggja fyrir hvað varðar undirskriftasafnanir og mótmæli og því um líkt, sem eru orðnar ansi háar, alveg þannig að hægt er að mæla þær í fylgi stjórnarflokkanna. Hv. þingmaður nefndi enn fremur að það að ekki eigi að standa við þjóðaratkvæðagreiðsluna rýri traust almennings til Alþingis alls, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Ég velti fyrir mér í því sambandi hvort þingmaðurinn telji að mótmælin sem eru hér fyrir utan beinist meira að Alþingi sem stofnun eða þessu tiltekna Alþingi, þ.e. þessari samsetningu af þeim ágætu hv. einstaklingum sem hér sitja, eða hvort mótmælin beinist meira gegn ríkisstjórninni, vegna þess að mótmælendur mótmæla gjarnan fyrir utan Alþingishúsið. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort það séu ekki aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem rýri traust fólks til Alþingis þegar rýrnunin á trausti ætti í raun að tengjast þeim aðilum sem taka ákvörðun. Mér er ljóst að það er ríkisstjórnin sem tekur ákvarðanir og virðist líta á þingið sem einhvers konar afgreiðslustofnun. En mig langar að inna hv. þingmann eftir viðhorfum hennar gagnvart þessu máli og þá hvort mótmælin beinist sérstaklega að Alþingi sem löggjafarsamkundu frekar en að ríkisstjórninni sem framkvæmdarvaldi.