143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er vissulega þeirrar skoðunar að áhrif framkvæmdarvaldsins, með því að ráðherrar sitji sem þingmenn, séu of mikil og bein þátttaka þeirra í störfum þingflokka og þar fram eftir götum. Það er mín skoðun og ég hef fjórum eða fimm sinnum flutt tillögu um það að ráðherrar sitji ekki á þingi. Ég held að mörkin yrðu skýrari og þingið yrði sjálfstæðara ef aðeins meiri fjarlægð væri þarna á milli.

Á hinn bóginn er náttúrlega ljóst að ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn, leggur fram þessa tillögu og auðvitað er það í höndum þingsins að fella hana. Það er engin spurning um það, það er í höndum þingsins. Ég held hins vegar að ef ráðherrarnir væru ekki svona innviklaðir í þingstörfin eins og þeir eru væri fjarlægðin meiri á milli og þá væri kannski ekki jafn sjálfsagt, fyrir ríkisstjórn sem hefur gefið jafn skýr loforð og stjórnarflokkarnir gerðu fyrir kosningar í þessum efnum, að leggja fram gerræðislega tillögu af þessu tagi, tillögu sem lokar á eina möguleikann, eins og ég sagði áðan. Það hefur ekki verið bent á neinn annan möguleika. Þetta er eini möguleikinn sem við sjáum í bili, kannski er hann ekki fær, það getur vel verið, en við megum ekki loka á hann, ekki klippa á þennan þráð áður en við látum á hann reyna.