143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem fjallaði kannski að litlu leyti um dagskrármálið en almennt um utanríkismál. Það eru nokkur atriði sem mig langar að svara af því tilefni. Ég mun hins vegar ekki leggja það í vana minn að svara slíkum spurningum í þessari umræðu.

Eigum við von á því að ganga í Kína eða ætlum við að gagnrýna aðferðafræði Kínverja ef þeir beita einhverja aðra harðræði? Já, við ætlum klárlega að gera það líkt og við erum að gera núna gagnvart Rússum. Við mótmælum framferði þeirra hástöfum. Við höfum sent fulltrúa okkar með eftirlitsnefnd ÖSE á Krímskaga til að reyna að fá að fylgjast með málum. Við tökum það alvarlega, við höfum kallað rússneska sendiherrann hér á landi til okkar og höfum tekið undir öll mótmæli sem Norðurlandaþjóðir, Eystrasaltsríkin og Evrópusambandið hafa sett fram. Við munum gera það við Kína og aðra sem brjóta mannréttindi eða níðast á öðrum þjóðum, að sjálfsögðu.

Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður hafi rangt fyrir sér varðandi kjarnorkukapphlaupið. Auðvitað er alltaf hætta á að slíkt endurtaki sig, það hefur einu sinni gerst, en ég held við verðum öll að hjálpast að við að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur því að við viljum það alls ekki.

Hv. þingmaður talar einhvern veginn þannig að við gætum dottið í fangið á vafasömum þjóðum. Alls ekki. Við eigum að reyna að koma í veg fyrir það og munum að sjálfsögðu gera það. Nálgun okkar í öllum samningum, hvort sem er við Kínverja, Breta, Bandaríkjamenn eða aðra, er alltaf hin sama, út frá forsendum um öryggi Íslendinga.

Við erum alls ekki að rjúfa samvinnu við Evrópusambandið. Við segjum hins vegar: Við viljum ekki ganga í Evrópusambandið. Við erum á fullu við að leita leiða til að styrkja samband okkar við Evrópusambandið og einstök Evrópuríki. Við samþykktum í dag í ríkisstjórn sérstaka stefnu um það. Við viljum reyna að styrkja okkur í EES-samningnum. Menn gera grín að því hér (Forseti hringir.) að ekki sé hægt að gera það en ég er ósammála því. Við erum alls ekki að rjúfa okkur frá Evrópu. Við erum partur af Evrópu og þar er áfram okkar mikilvægasti markaður svo dæmi sé tekið.