143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt þegar gripið er til aðgerða, sama hvort það er gegn Rússum í þessu tilfelli eða einhverjum öðrum ríkjum, að um það sé breið samstaða og sátt, annars bíta slíkar aðferðir voða lítið eða ekki neitt. Við munum ekki skorast undan því að svara þeirri spurningu þegar að því kemur hvort við viljum standa til dæmis með Evrópuþjóðum eða einhverjum öðrum að efnahagsþvingunum eða hvað þær kallast. Við munum fara eftir því kerfi sem við höfum komið okkur upp hér, ráðfæra okkur við utanríkismálanefnd og ýmislegt annað ef til þess kemur.

Mikilvægast í þessu er hins vegar að menn nái samstöðu um hvernig á að bregðast við. Ég held að allir séu sammála um að það sem Rússar eru að gera í dag sé ólöglegt, þeir eru að brjóta samkomulag, þeir brjóta yfirlýsingar sem hafa verið gerðar. Við höfum mótmælt því og munum halda því áfram. En vissulega, ef þeir ætla að halda þessu áfram þurfum við mögulega að taka þátt í að bregðast sterkar við.

Varðandi seinni hlutann af því sem hv. þingmaður nefndi, um aðkomu þjóðarinnar að mikilsverðum ályktunum, held ég að við séum sammála með stóru myndina um það að þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum þurfi að skoða hvenær og hvernig við hleypum þjóðinni að því. Við megum samt ekki gleyma því að við erum líka með Alþingi, við erum með þingræði sem hefur ákveðið hlutverk. Við þurfum að vanda okkur vel þegar við ákveðum hvenær við eigum að taka það úr sambandi og hvenær ekki, hvenær ekki er lengur þörf fyrir þingmenn.

Ég efast um að þær hugmyndir sem uppi eru í dag um þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda viðræðunum áfram séu réttar. Ég hef hins vegar ekkert útilokað það með einhverju formi, til dæmis eftir umfjöllun í utanríkismálanefnd. Tillaga Vinstri grænna er mjög áhugaverð, ég hef líka sagt það, en mér finnst eðlilegt að þingið komi að þessu. Mér finnst eðlilegt að þingið fái að ræða málin. Mér finnst mjög sérstakt við fyrri umr., þegar umræðan er varla farin af stað, að þá séu menn farnir að tala um einhvern samning um hvernig eigi að ljúka málinu. Það kann vel að vera að á einhverjum öðrum tímapunkti sé rétt að ræða eitthvað slíkt en sá tími er varla kominn því að þingið (Forseti hringir.) á eftir að fjalla um málið. Ég mundi vilja sjá allar þessar þrjár tillögur fara til utanríkismálanefndar, að nefndin gæfi sér góðan tíma, fengi umsagnir, allt þetta ferli. Ég vil fyrir mitt leyti ekki þrýsta neitt á að menn þar flýti sér.