143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka mjög góðar spurningar. Varðandi fyrstu spurninguna, um stefnu Pírata í Evrópumálum, höfum við enga einhlíta stefnu um þau heldur höfum við viljað setja fókusinn á að fólk geti tekið ákvörðun með þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort það vilji eða vilji ekki ganga upplýst inn í Evrópusambandið. Ég hef verið mjög hlynnt því í gegnum tíðina, spáð mikið í utanríkismál og samskipti þjóða o.s.frv., og mér finnst gagnlegt að við séum í samstarfi við margar þjóðir. Mér finnst alls ekki að við eigum annaðhvort að vera í ESB eða einhverju öðru samstarfi. Mér hefur fundist við oft og tíðum ná að gera mjög góða hluti í alþjóðastarfi okkar þó að við séum fámenn þjóð og hefur hernaðarleysi okkar án efa töluvert mikið að segja þegar kemur að friðarmálefnum og hugrekki til að standa með kúguðum þjóðum sem eru að reyna að taka sín fyrstu skref í átt til lýðræðis. Við mættum gjarnan gera miklu meira af því.

Í gegnum tíðina hefur mér oft fundist ráðamenn hér frekar skammsýnir. Þó hafa verið hér víðsýnir þingmenn og framsýnir en til dæmis með norðurslóðirnar er nú allt í uppnámi út af Rússum og því sem er að gerast í Úkraínu. Við erum búin að hleypa Kínverjum og Rússum mjög djúpt inn í norðurslóðasamstarfið. Það hefur töluvert verið fyrir atbeina Íslendinga og menn meðal annars þakka fyrir það í fríverslunarsamningnum við Kína að við höfum hjálpað þeim að fá áheyrn þar.

Mig vantar svolítið heildarsýn yfir utanríkisstefnuna okkar (Forseti hringir.) því að yfirleitt hefur hún verið þannig að allir þingmenn og flokkar eru sammála um hana en það er ekki þannig í dag.