143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að á síðari árum hafi kannski verið talsverð sátt um stefnu Íslands í utanríkismálum er það ekki algilt. Ég nefni sérstaklega Atlantshafsbandalagið sem mín stjórnmálahreyfing er enn á móti aðild okkar að. Það væri kannski ráð að við efndum til þjóðaratkvæðagreiðslu um stefnu okkar í utanríkismálum og spyrðum að því í leiðinni. Ég mundi gjarnan vilja heyra afstöðu þjóðarinnar til þess hvort við eigum að taka þátt í því hernaðarbandalagi.

En það sem ég er að fiska eftir hjá hv. þingmanni er að það er talsvert um það í þeirri umræðu sem við eigum hér núna að ef við förum ekki inn í Evrópusambandið sé hættan sú að Ísland einangrist með einhverjum hætti, að við verðum einangruð smáþjóð sem lendir þá undir áhrifavaldi annarra ríkja. Hv. þingmaður nefndi hér að henni fyndist mikilvægt að við ættum samstarf í ólíkar áttir, við ýmsa aðila, ekki bara Evrópusambandið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji raunverulega hættu á að við gætum einangrast. Það sem maður veltir líka fyrir sér er hvort jafnvel séu fram undan enn frekari breytingar á Evrópusambandinu sem eiga eftir að breyta talsvert landslaginu í alþjóðamálunum. Það er þó spurning sem ég veit að er mjög erfitt að svara á stuttum tíma.

Valdajafnvægið í heiminum er að breytast um þessar mundir. Þegar við höfum í þessari umræðu aðallega verið að ræða hagsmuni Íslendinga, sérlausnir eða ekki sérlausnir, er dálítið mikilvægt líka að við horfum á stóru myndina, þ.e. hvert Evrópusambandið stefnir og hver staða þess verður. Getum við sagt hvar við ætlum að stilla okkur upp, hvort sem það er innan Evrópusambandsins, við hlið þess eða við hlið einhvers annars? Gæti hv. þingmaður haldið aðeins áfram á þeirri braut sem hún var á áðan með framtíðarsýn í þeim efnum í ljósi þess að það sé mikilvægt að vinna með mörgum aðilum? Hvernig sér hún fyrir sér að þetta landslag eigi eftir að breytast á næstunni?