143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem vakti fyrst og fremst fyrir mér var að undirstrika hversu mikilli ógn fullveldi okkar stafar af núverandi stöðu okkar, vegna þess að við leitumst auðvitað við að líta fram hjá þeim erfiðleikum sem við erum að fást við, einfaldlega til þess að þrauka í gegnum þá. Menn standa til að mynda í ræðustól Alþingis og tala um erfiðleikana í Evrópu. Þá tölum við úr ræðustól ríkis sem hefur ekki efni á því að skila erlendu fólki þeim fjármunum sem það hefur komið með inn í landið. Fólk sem á þessu löggjafarþingi hefur sett lög sem banna fólki að ná í eignir sínar talar um erfiðleika í öðrum löndum. Ég held að ákaflega mikilvægt sé að við horfumst ískalt í augu við þá stöðu að við erum ekki frjáls og fullvalda þjóð meðan við erum í þessum höftum. Forsendan fyrir því að við getum kallað okkur sjálfstæð til framtíðar er að við brjótumst út úr þeim höftum.

Um fullveldisspurninguna og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er það að segja að það er algert lágmarksatriði að eiga aðild; að eiga aðild að eftirlitsstofnunum sem hafa eftirlit með íslenskum atvinnufyrirtækjum; að eiga aðild að ákvörðunum um að sekta íslensk atvinnufyrirtæki; að eiga aðild að stofnunum sem geta lokað heilum atvinnugreinum á Íslandi; og eiga aðild að setningu þeirrar löggjafar sem gildir í landinu. Við munum ekki ráða henni ein, við munum auðvitað þurfa að leita samstarfs við aðrar þjóðir í því eins og öðru eftir því hvar hagsmunir okkar liggja á hverjum tíma. Við munum fyrst og fremst geta haft áhrif á afmörkuðum sviðum, það eru þau svið (Forseti hringir.) þar sem við höfum mikið fram að færa og sérþekkingu, svo sem eins og í sjávarútvegsmálum.