143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar ræðu hans. Mig langar til þess að spyrja út í eitt atriði sem ég held að hafi ekki verið gefinn nægjanlegur gaumur í þessari umræðu. Það eru fullyrðingar forustumanna ríkisstjórnarflokkanna þess efnis að það sé Evrópusambandið sem knýi á um svör frá Íslandi. Það mátti heyra á t.d. viðtali við hæstv. forsætisráðherra í Kastljósi í síðustu viku að það væri meginástæðan fyrir því að menn legðu núna fram þessa tillögu, annað væri óheiðarlegt gagnvart Evrópusambandinu.

Nú hef ég lesið mig í gegnum þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en ég finn þess ekki stað í greinargerðinni að þetta sé röksemd í málinu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki dæmi þess að menn haldi leyndri svo mikilvægri röksemd í einhverju máli, og hvaða skýringu hann hefur mögulega á því að þess sé ekki getið í greinargerðinni að þetta sé rótin að málinu. Mér finnst það mjög undarlegt satt best að segja. Fyrir mitt leyti undrar það mig að menn skuli ekki tína til þá röksemdafærslu. Hjá mér vaknar sú hugmynd, ja, eigum við að segja þær grunsemdir, að það geti verið að hér sé á ferðinni eftiráskýring. Ég vil biðja hv. þingmann um að bregðast við þessum hugleiðingum mínum.