143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvort á að kalla þetta andsvar en ég ætla alla vega ekki að falla í þá gryfju, sem hv. þingmaður gerði hér, að nota orð eins og óheiðarleiki, öfgar, að spilla, kannski svik hafi heyrst nokkrum sinnum; hv. þingmaður er stundum stóryrtur.

Ég vil leiðrétta hv. þingmann með það, ég hugsa að það sé ekki af óheiðarleika sem hann nefnir það ekki heldur bara af misskilningi eða kunnáttuleysi, að Íslendingar hafa ekki brotið EES-samninginn. Það kemur fram í 4. mgr. 43. gr. samningsins að ríki geta gripið til þessara aðgerða þegar þau komast í vandræði með greiðslujöfnuð og annað og það sem meira er er að EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í desember 2011 að Íslendingar hefðu ekki brotið samninginn.