143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held enn að það sé misskilningur en ekki óheiðarleiki þegar hv. þingmaður nefnir að menn sjái í gegnum fingur sér gagnvart Íslendingum. Ég minni á það enn og aftur að samkvæmt 43. gr. EES-samningsins getum við haft þessi gjaldeyrishöft á meðan ástand mála er á þann veg á Íslandi. Menn eru því ekkert að sjá í gegnum fingur sér með neitt. Við eigum rétt á þessu og við nýtum okkur að sjálfsögðu þann rétt. Um þetta hefur EFTA-dómstóllinn meðal annars fjallað.

En það eru fleiri sem eru því miður í þeirri stöðu að þurfa að vera með gjaldeyrishöft og þar á meðal Evrópusambandsríkið Kýpur sem býr við það að þurfa að grípa til þess eins og við. Samkvæmt sama samningi, samkvæmt samningi EFTA-ríkjanna, þessara þriggja, og Evrópusambandsins, getur þetta gengið á báða bóga. Þess vegna gátu Kýpur og Evrópusambandið, kýpversk stjórnvöld, sett þessi höft á þar vegna þess að þau eru aðilar að sama samningi og við sem leyfir það, samkvæmt þessari grein, að setja höft. Þetta snýst ekki um það að menn þurfi að sjá í gegnum fingur sér. Ég held hins vegar að allir séu sammála um að við þurfum að lyfta þessum höftum sem allra fyrst. Það vill enginn hafa þau til lengri framtíðar.