143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Nú vil ég spyrja hv. þingmann að öðru. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram tillögu sem við teljum ákveðna málamiðlun í þessu máli, þ.e. að áfram verði formlegt hlé á viðræðum en það verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu einhvern tímann á kjörtímabilinu. Því er alveg haldið opnu, hún gæti þess vegna verið eftir þrjá mánuði eða eftir þrjú ár, bara innan kjörtímabilsins, og það væri Alþingis að taka ákvörðun um það. Sú tillaga sem hér liggur fyrir og við ræðum sérstaklega núna lýtur að því að draga umsókn til baka, slíta viðræðum. Hvað telur hv. þingmaður um tillögu okkar, þingmanna VG? Telur hann að hún geti verið einhvers konar leið til að vinna að sáttum í málinu?

Í öðru lagi: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér áframhald vinnunnar? Ég heyri að honum finnst umræðan um þetta mál í þinginu ekki hafa verið góð og hér hefur auðvitað ekki náðst neitt samkomulag um málsmeðferð.

Hvaða vonir bindur hv. þingmaður við þá vinnu sem er fram undan í utanríkismálanefnd þar sem ekki kemur bara fyrir tillagan sem er hér á dagskrá heldur líka aðrar tillögur, þeirra á meðal tillagan sem hv. þingmaður er flutningsmaður að og sú tillaga sem ég nefndi áðan?