143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:47]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég mundi vilja leita allra leiða til þess að þessu yrði ekki slitið. Mín afstaða hefur alltaf verið skýr og við komum fram með tillögu líka, Björt framtíð, sem er ekkert ósvipuð ykkar um að setja þetta á ís áfram. Ég er ekki alveg sammála henni, en ég er maður sátta. Ég vil alls ekki að þessum viðræðum verði slitið sem gerði það kannski að verkum að það yrði mjög erfitt að taka viðræður upp aftur. Við þyrftum kannski að byrja algjörlega frá grunni við að semja okkur í gegnum alla kaflana aftur. Ég held að það sé óðs manns æði og algjört ábyrgðarleysi, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið á þingi um sparnað og hagræðingu og allt þar fram eftir götunum. Svo væri tekin fjögurra ára vinna með gríðarlega öflugri samninganefnd og henni hent út um gluggann. Það væri algjört ábyrgðarleysi. Ég mundi vilja gera allt til þess að við hefðum þetta frekar opið.

Ef þú vilt fá að vita nákvæmlega mína afstöðu er hún sú að við eigum að halda áfram aðildarviðræðunum án þess að hafa nokkra atkvæðagreiðslu, bara halda áfram með þessar viðræður, klára þær og leggja okkur öll fram við það.

Menn tala um pólitískan ómöguleika. Hvaða ómöguleiki er það? Við erum kosin af þjóðinni til að vinna fyrir hana að heill og hamingju. Ef menn treysta sér ekki til að leiða þessa vinnu, ef það er svo mikill pólitískur ómöguleiki, eiga þeir að segja af sér, boða til kosninga eða eitthvað annað. Það er greinilegt að þetta er miklu stærra mál en menn gerðu sér grein fyrir. Ef menn geta ekki tekist á við það verða þeir að víkja, það er ósköp einfalt. Það er enginn pólitískur ómöguleiki í því.

Ég vona að vinnan í nefndinni verði góð og menn komist að einhverri niðurstöðu um að slíta þessu ekki. Það er lykilatriði í þessu máli fyrir mig að þessu verði ekki slitið heldur haldið opnu og fólki gefinn möguleiki á að klára þessar viðræður og leggja aðildarsamning fyrir þjóðina.