143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála honum um að best væri að klára viðræðurnar, fá niðurstöðuna og leggja hana í dóm þjóðarinnar. Sennilega verður ekki farið að okkar ráðum hvað það varðar þannig að finna þarf aðrar leiðir. Þjóðin hefur kallað eftir þeirri leið að draga umrædda tillögu til baka og halda í framhaldinu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hv. þingmaður kom inn á það að margar skýrslur hefðu verið gerðar og hann vissi svo sem ekki alveg svarið við því hvort það væri endilega hagur þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið, ég skildi hv. þingmann þannig. Mjög góðar skýrslur hafa einmitt verið gerðar og skýrsla Seðlabankans er ein af þeim betri en þar er fjallað um gjaldeyrismálin. Þar er hermilíkan sett upp og reiknað út hvað það mundi þýða fyrir Ísland ef við tækjum upp evru. Ein af niðurstöðunum þar er að innlendir raunvextir mundu lækka og landsframleiðsla á mann mundi hækka varanlega. Þarna er verið að tala um hag heimila í lægri vaxtakostnaði fyrir fyrirtækin og fyrir ríkissjóð.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki eins og nægilegar sannanir séu komnar fram fyrir því að það sé hagur þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið. Við eigum eftir að loka nokkrum köflum sem við höfum ekki fjallað um í EES-samningnum. Það er ekki bara sjávarútvegurinn, það eru líka efnahags- og peningamál, fjárhagslegt eftirlit og byggðastefna, allt kaflar sem við þyrftum nauðsynlega á að halda.

Í raun virðist það aðeins vera sjávarútvegurinn (Forseti hringir.) sem stendur út af. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það með mér.