143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:51]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, fyrir þetta andsvar.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að það sé mjög bagalegt að ekki hafi verið búið að opna þessa kafla. Þeir sem hafa farið með þessi mál hafa skýrt frá því að ýmsar hindranir hafi verið í vegi og ekki hafi verið hægt að klára þetta. Ég tek þær skýringar trúanlega. Ég hef enga ástæðu til að efast um að það sé rétt hjá þeim.

Hvað varðar vaxtastefnu og annað, það er eitt af því sem ég hef líka velt fyrir mér. Ég hef ekki lesið skýrslu Seðlabankans, ég viðurkenni það fúslega, en ég hef heyrt mikið um hana, að eina raunhæfa leiðin sé að taka upp evru og fara í Evrópusambandið. Ég vil líka trúa því.

Fyrir mér eru nægar sannanir komnar fram fyrir því að betra sé fyrir okkur að vera í Evrópusambandinu. En ég þori ekkert að fullyrða um það, ekki fyrr en samningur liggur fyrir, ekki frekar en í öllum öðrum málum. Ef maður er að gera samning verður maður að sjá hann áður en maður getur tekið ákvörðun.

Ég á góða vini sem búa í Danmörku. Þau keyptu sér hús fyrir fimm árum. Þau fengu að velja hvort þau vildu breytilega vexti, þeir færu aldrei yfir 5%. Þau völdu sér fasta 3% vexti. Og lánið þeirra lækkar í hvert skipti sem þau borga af því. Þau vinna bæði átta tíma á dag, hann er pípulagningamaður og hún er meinatæknir. Þau lifa mjög góðu lífi. Þau geta ferðast til Íslands þrisvar á ári, konan, sem er Íslendingur, og svo fara þau einu sinni á ári í ferðalag. Þetta er ekki hægt á Íslandi, það er bara ekki hægt.

Dóttir mín er í námi í Bandaríkjunum. Hún þurfti að taka sér lán í Landsbankanum, það er með 12% vöxtum; 12% vextir, þetta er stórkostlegt. Mér skilst að stýrivextir í Evrópu séu 0,5%. Þetta er líka ein stór ástæða fyrir því að ég legg mikla áherslu á að við klárum viðræðurnar og getum svo jafnvel samþykkt samninginn. Það er einmitt það að á komist vextir sem fólk getur lifað við.