143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom inn á það að hann hefði farið út í stjórnmál af því að hann vildi breyta stjórnmálahefðinni. Nú þegar hv. þingmaður er kominn á þing, og horfir upp á stjórnarhætti hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans hér á Alþingi, hvaða ráð kann hann til að taka á þeim málum? Við erum hér með stjórnvöld sem horfa ekki á 50 þús. undirskriftir, sem hlusta ekki á þúsundir manna sem koma hingað á Austurvöll dag eftir dag, sem velta ekki fyrir sér gildi kannana þar sem rúmlega 80% þjóðarinnar biðja um að fá að segja skoðun sína á fyrirætlunum stjórnvalda. Hvernig eigum við að taka á þessu? Getum við bara kurteislega látið hlutina yfir okkur ganga? Eða hvaða ráð höfum við? Við sem vorum hér á síðasta kjörtímabili höfum ekki komið auga á þau ráð, en hugsanlega hefur nýr þingmaður einhver ráð handa okkur.

Ég er þeirrar skoðunar að alltaf sé betra að fara samningaleiðina, að vera kurteis og orðvar og allt það sem ýtir undir góð samskipti. Ég sé satt að segja ekki að það dugi í þeirri baráttu sem við erum í nú, baráttu sem við erum ekki bara í sem minni hluti á þingi heldur fyrir hag þjóðarinnar, baráttu fyrir því að þjóðin fái að segja skoðun sína í máli sem varðar hennar hag. Getur hv. þingmaður gefið mér einhver ráð í stöðunni?