143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:56]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get gefið hv. þingmanni það ráð að lesa 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 179–184, þar sem fjallað er um stjórnmálamenningu á Íslandi, hvernig hún hefur þróast í gegnum tíðina, hvernig foringjaræðið hefur verið algjört í íslenskum stjórnmálum. Venjulegir þingmenn hafa ekkert að segja, allar ákvarðanir eru teknar inni í þröngum hópi foringjanna og síðan er bara haldið áfram. Þetta liggur þarna allt saman á borðinu. Þar er vitnað í stjórnmálamenn sem hafa starfað í íslenskum stjórnmálum áratugum saman þar sem þeir taka fram að það er töluvert síðan, 2003/2004, að stjórnmálamenn gáfust upp fyrir auðvaldinu og viðskiptaveldinu og hafa ekkert um það að segja hvernig íslenskum stjórnmálum er háttað. Þetta stendur þarna svart á hvítu, til dæmis er vitnað í Guðna Ágústsson, Styrmi Gunnarsson og fleiri málsmetandi menn í þessu þjóðfélagi sem hafa starfað í íslenskum stjórnmálum áratugum saman. Þetta liggur bara ljóst fyrir.

Fyrir mér snúast stjórnmál um það að vinna að hag þjóðarinnar. Allar ákvarðanir sem við tökum eiga að miðast við að þeir sem eru verst settir njóti góðs af því fyrst. Mér finnst þessi ríkisstjórn ekki hafa gert það, því miður. Ég hef reynt af fremsta megni að koma fram af kurteisi og auðmýkt og ég hef hvatt ríkisstjórnina til góðra verka. Þið getið skoðað ræðurnar mínar ef þið trúið því ekki. Ég hef ekkert endilega litið á mig sem stjórnarandstæðing, ég lít bara á mig sem þingmann þjóðarinnar sem er valinn hérna inn til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Eitt af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar í mínum augum er innganga í Evrópusambandið eða aðildarviðræðurnar og það er búið að vera það í mörg ár. Það mun verða mitt baráttumál áfram. En við getum haldið áfram að svamla hér í kviksyndi fáviskunnar og taka afstöðu til hlutanna án þess að hafa kynnt okkur þá. Mér sýnist ríkisstjórnin vera að bjóða okkur upp á það.