143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:58]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu utanríkisráðherra um afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Tillagan hefur vakið sterk viðbrögð, bæði á þingi og utan þess, sem ættu kannski ekki að koma neinum á óvart í ljósi þess að aðildarmálið hefur frá upphafi verið tilefni mikilla átaka, allt frá því að aðildarumsóknin var lögð fram í júlí 2009. Það er því mikilvægt að þingið gefi sér góðan tíma til að ræða tillöguna efnislega og vísi henni síðan til utanríkismálanefndar þar sem hún mun fá vandaða umfjöllun. Í ljósi þess hve umdeilt málið er ætti nefndin að gefa sér rúman tíma til að fjalla um það, kalla eftir umsögnum og jafnvel gera hugsanlegar endurbætur á tillögunni náist samstaða um slíkt.

En hver eru helstu rökin fyrir því að afturkalla aðildarumsóknina? Að mínu mati eru ýmis veigamikil rök fyrir því að aðildarumsóknin verði afturkölluð en líklega skiptir mestu máli að sjálfan grundvöll aðildarumsóknarinnar vantar algerlega. Vilji til aðildar er ekki til staðar.

Viðhorfskannanir hafa um árabil sýnt yfirgnæfandi andstöðu landsmanna við aðild. Þeir sem eru mjög andvígir aðild eru þrefalt stærri hópur en þeir sem eru mjög hlynntir aðild. Minna en þriðjungur landsmanna kveðst vera hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Það er því hvorki heiðarlegt né skynsamlegt að þjóð sem ekki vill aðild óski inngöngu eða sé með stöðu umsóknarríkis. Væri aðildarumsóknin ekki afturkölluð mundi það jafngilda yfirlýsingu um að Ísland stefni að inngöngu í Evrópusambandið. Með slíkri yfirlýsingu væri Ísland a veikja stöðu sína að óþörfu á alþjóðavettvangi. Alþjóðasamfélaginu er fullkunnugt um að við inngöngu í Evrópusambandið mundu allir milliríkjasamningar sem gerðir hafa verið við Ísland falla niður. Það getur því skaðað hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi að gefa alþjóðasamfélaginu þau röngu skilaboð að aðild sé á döfinni.

Í síðustu alþingiskosningum fengu þeir stjórnmálaflokkar sem telja hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Mikill minni hluti þings og þjóðar hefur áhuga á aðild en sá áhugi er aðeins bundinn því skilyrði að góður aðildarsamningur náist.

Hvað er átt við með góðum aðildarsamningi? Er eitthvað sem bendir til þess að hægt sé að ná góðum aðildarsamningi? Sagt er að góður samningur þurfi meðal annars að taka tillit til sérstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum. Þegar aðildarumsóknin var lögð fram í júlí 2009 var samstaða í utanríkismálanefnd um ákveðin meginmarkmið í samningaviðræðum við ESB varðandi sjávarútveginn. Tryggja þyrfti forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni og takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Þjóðin ætti að hafa forræði yfir stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan fiskveiðistjórnarsvæðisins. Íslendingar færu með samningsforræði yfir stjórn veiða úr deilistofnum. Meiri hlutinn taldi hægt að tryggja þessi atriði í aðildarsamningi.

Eftir fjögurra ára samningaviðræður hefur kaflinn um sjávarútvegsmál ekki einu sinni verið opnaður og ekkert handfast um að hægt sé að ná fram þessum markmiðum. Í raun bendir flest til hins gagnstæða. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er fjallað um sjávarútvegsmál. Þar kemur fram að Evrópusambandið fari eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í fiskveiðistefnu sambandsins. Það setur reglur um hámarksafla, skiptingu kvóta milli aðildarríkja og fleiri atriði. Sambandið semur um deilistofna fyrir hönd aðildarríkjanna.

Nýjum aðildarríkjum hefur ekki tekist að fá varanlegar undanþágur frá hinni sameiginlegu stefnu Evrópusambandsins í útvegsmálum þrátt fyrir tilraunir í þá átt. Talið er nánast útilokað að hægt verði að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Hugsanlega sé hægt að ná einhverjum tímabundnum undanþágum en þær haldi þá aðeins í þann tíma sem þeim er markaður eða þar til breyting kann að verða gerð á löggjög sambandsins.

Að mati skýrsluhöfunda er mjög langsótt að Ísland geti fengið undanþágur sem tryggi þjóðinni varanlegt forræði yfir sjávarauðlindum. Þessari stöðu er mjög vandlega lýst í skýrslunni og viðaukum hennar. En jafnvel þótt varanlegar undanþágur fengjust frá sjávarútvegsstefnu sambandsins er ekki víst að þær héldu til lengdar. Þróun sambandsins hefur verið í átt að sífellt nánara sambandi og sú stefna kemur skýrt fram í Lissabonsáttmálanum. Leiðtogar sambandsins hafa talað opinskátt um að framtíð sambandsins sé sú að breytast úr sambandi í bandaríki. Við sérhvert skref í átt að nánari samruna yrði hinum varanlegu undanþágum Íslands hætta búin.

Eftir að ríki er orðið aðili að Evrópusambandinu og hagsmunir þess orðnir samtvinnaðir sambandinu er mjög erfitt að ganga aftur út. Úrsagnarríki hefur enga milliríkjasamninga og hefur enga tryggingu fyrir fríverslunarsamningi við sambandið. Sambandið hefur enga hagsmuni af því að dekra við útgönguríki, þvert á móti. Aðildarríki kjósa því að una ýmsu mótlæti fremur en að grípa til úrsagnar.

Varanlegar undanþágur, sérlausnir og annað í þeim dúr eru því ekki tryggar til lengri tíma. Þeir sem vilja ljúka aðildarsamningi þurfa að íhuga þetta og þessa staðreynd. Til hvers þá að eyða frekari tíma og fjármunum í að semja um undanþágur og sérlausnir frá meginreglum sambandsins ef ekki er hægt að treysta að slíkur samningur haldi til lengdar? Til hvers að eyða meiri tíma og fjármunum í aðildarferli að sambandi sem þjóðin vill ekki ganga í?

Frá því að umsögnin var lögð fram höfum við fengið að sjá hvernig Evrópusambandið tekst á við efnahagskreppu í sínum aðildarríkjum. Nú er ljóst að aðild að sambandinu hefði ekki getað komið í veg fyrir efnahagsáföll á Íslandi. Evrulandið Kýpur hefur mátt þola bæði hrun og höft. Hagvaxtarhorfur eru dapurlegri í Evrópusambandinu en í öðrum heimsálfum. Hér eru þær bjartar. Atvinnuleysi í Evrópusambandinu er margfalt meira en hér og fer enn vaxandi. Vandamál myntbandalagsins eru enn óleyst og framtíð þess er hulin óvissu. Vextir íbúðalána eru mjög mismunandi í evruríkjunum og í sumum löndum eru raunvextir íbúðalána hærri en hér. Vandamál sambandsins eru í raun meiri en okkar.

Svo virðist sem flestar forsendur aðildarumsóknar séu brostnar. Aðild að Evrópusambandinu átti að vera lausn á efnahagsvanda Íslands en sambandið glímir nú sjálft við mikinn efnahagsvanda. Aðild að sambandinu átti að vera framtíðarlausn á gjaldeyrismálum Íslands en vandi myntbandalagsins er talinn svo mikill að sérfræðingar draga í efa að það muni endast.

Aðildarferlið átti að taka 18 mánuði en eftir fjögur ár var aðeins búið að loka 11 köflum af 33. Varanlegar undanþágur áttu að vera mögulegar, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, en eftir fjögurra ára samningaferli er ekkert í hendi í þeim efnum og sérfræðingar telja mjög langsótt að undanþágur geti verið varanlegar.

Virðulegi forseti. Forsendur aðildarumsóknarinnar eru brostnar. Þjóðin býr ekki yfir einlægum vilja til aðildar. Það er því hvorki heiðarlegt gagnvart Evrópusambandinu né skynsamleg utanríkisstefna að hafa stöðu umsóknarríkis á meðan þjóðin sjálf vill ekki aðild.