143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég mundi kannski ekki segja að það væri engin leið að komast að því hvað væri í boði. Ég er á þeirri skoðun að vel sé hægt að átta sig á því hvað er í boði í Evrópusambandinu með því að kynna sér sáttmála þess, Lissabonsáttmálann sem hefur verið þýddur yfir á íslensku. Og fyrir þá sem hafa áhuga á því að sjá endanlegan samning að lesa skýrslu Hagfræðistofnunar sem lýsir því á hvaða stig samningarnir voru komnir og hvað væri í boði.

Varðandi aðkomu þjóðarinnar að ákvörðuninni held ég í sjálfu sér að ekki sé búið að útiloka það á nokkurn hátt að þjóðin muni eiga aðkomu að málinu. Það hefur hins vegar verið bent á ómöguleikann við að leggja ákveðna spurningu af ákveðinni tegund fyrir, en ekki er hægt að útiloka það í meðferð utanríkismálanefndar þar sem málið er til skoðunar að einhverjar breytingar verði og einhver þróun á því.