143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:18]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Til að vekja athygli á áhrifunum og áhrifaleysi innan Evrópska efnahagssvæðisins — yrðu áhrif okkar meiri innan Evrópusambandsins? Þetta er umræða sem kemur oft upp.

Nú höfum við ekki mikil áhrif í Evrópska efnahagssvæðinu á þær gerðir sem koma hingað. Við getum haft einhver áhrif á frumstigum en í rauninni höfum ekki mikil áhrif í ákveðnum málaflokkum. Við höfum þó í þeim málaflokkum sem lúta að okkar mikilvægustu málum, eins og sjávarútvegi, landbúnaði, orkumálum og auðlindamálum, full yfirráð. Ef við göngum í Evrópusambandið fara þau áhrif niður í sex þingmenn af 800. Við fengjum að hafa sáralítil áhrif. Við fengjum kannski einn mann í framkvæmdastjórn og einhverja „rotation“ í kringum það. En áhrif okkar mundu snarminnka í mikilvægum málaflokkum en þau mundu ekki snaraukast í hinum áföngunum, því miður. Þau mundu eiginlega fara úr 0% upp í einhver 0,5%, innan við 1%. Þú getur reiknað þetta út, ég veit að þú ert mjög flinkur að reikna og þú mundir örugglega reikna það út að þetta væri slæm (Forseti hringir.) ákvörðun sem leiddi til meira (Forseti hringir.) áhrifaleysis.