143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Í upphafi ræðu sinnar færði hv. þingmaður rök fyrir því að við ættum að slíta aðildarviðræðum. Hann nefndi kannanir þeirri skoðun sinni til stuðnings, talaði um að meiri hluti þjóðarinnar væri á móti því að ganga inn í Evrópusambandið. Nú veit ég ekki hversu gamlar þessar kannanir eru, ég þekki það ekki, en hann nýtir sér niðurstöður í könnunum til að undirbyggja þá skoðun sína að slíta þurfi viðræðum. Þjóðin þurfi að vilja ganga í Evrópusambandið svo hægt sé að ganga leiðina til enda.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann telji um þær kannanir sem nýlega hafa verið gerðar sem sýna að 82% þjóðarinnar vilji fá að segja skoðun sína á því hvort það eigi að slíta eða ekki, og hvort það séu ekki þung rök á vogarskálarnar að fara eigi að þessu ákalli þjóðarinnar. Þetta er deilumál hér í þingsal. Þetta er deilumál úti um allt samfélagið. Mundu stjórnvöld ekki sýna ákveðinn sáttavilja með því að leggja málið í dóm þjóðarinnar? Hv. þingmaður telur að þjóðin vilji ekki ganga í ESB, en vill hún klára aðildarviðræðurnar? Vill hún sjá hvaða samningar eru mögulegir?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann ef hann hefur tíma til að svara um stöðu nýsköpunarfyrirtækja. Það er nefnilega þannig að sumir vilja ganga í ESB til þess að geta búið á Íslandi. Hver er framtíðarsýn hv. þingmanns varðandi nýsköpunarfyrirtæki ef við höldum áfram með krónuna?