143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:21]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Oddný G. Harðardóttur fyrir þessar spurningar.

Ef ég fer kannski fyrst í nýsköpunina þá þekki ég mjög vel til á því sviði. Ég hef ekki orðið var við að það sé sérstakt vandamál fyrir nýsköpun á Íslandi að vera ekki aðili að Evrópusambandinu eða að hér sé króna. Ég hef tekið þátt í nýsköpun eiginlega alla mína starfsævi og það hefur ekki verið aðalvandamálið, því get ég alveg lofað, að hér sé ekki aðild að Evrópusambandinu. Ég hef meira að segja komið að því að stunda nýsköpun innan Evrópusambandsins, þar hefur mér einmitt þótt umhverfið miklu svifaseinna og erfiðara en hér. Þannig að margt er gott hér.

Ég er ekki viss um að við þurfum að sækja bætt umhverfi fyrir nýsköpun til Evrópusambandsins. Ég mundi frekar horfa vestur um haf til Bandaríkjanna þar sem er verið að gera mjög áhugaverða hluti, hluti sem við gætum líka gert hér og þyrftum þá ekki að bíða eftir að Evrópusambandið innleiddi þá hluti fyrir okkur. Við eigum að nýta smæðina og kraftinn til að verða leiðandi land í nýsköpun og ganga miklu lengra í því en ég held að Evrópusambandið geti leyft sér, enda eru aðstæður þar aðrar og aðrir markaðir.

Ég er ekki á móti því að þjóðin hafi aðkomu að stórum ákvörðunum í þessu. Ég hefði t.d. talið mjög eðlilegt að hún hefði gert það, og ég kallaði eftir því, þegar aðildarumsóknin var lögð fram. Það var mikil ákvörðun í sjálfu sér, mjög stórt skref, miklu stærra skref að ákveða að senda inn aðildarumsókn og meiri breyting fyrir þjóðina en að hætta við aðildarumsókn. Þá sýndu einmitt skoðanakannanir svipað hlutfall manna sem vildi fá að greiða atkvæði um þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég mundi kannski vilja spyrja hv. þingmann sem þá stóð að því að standa gegn því: Með hvaða rökum var þá staðið gegn því?