143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Undanþágur í sjávarútvegsmálum. Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar voru sett fram þau meginsjónarmið og þær forsendur sem við töldum að ætti að leggja til grundvallar. Þau eru vissulega frábrugðin því regluverki sem gildir innan Evrópusambandsins í veigamiklum atriðum. Og við vissum alveg hvað við vorum að gera, þetta voru þau atriði sem við töldum að þyrftu að nást fram til þess að hagsmunum sjávarútvegsins og hagsmunum Íslands í þessum mikilvæga málaflokki yrði vel fyrir séð. Það var okkar sannfæring.

Eru undanþágur líklegri núna en þá? Ja, um það veit ég bara ekki, ég verð að segja það alveg eins og er. Ég veit ekkert hver niðurstaðan úr samningaviðræðum yrði. Því miður tókst ekki að opna kaflann um sjávarútvegsmál og Evrópusambandið sýndi ekki á sín spil hvað það varðar. Það er margt sem orsakaði það, m.a. tímafrek endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þar sem, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson las upp hér áðan, verið er að feta sig frá þeirri miklu miðstýringu sem er í sjávarútvegsmálum yfir í að auka sjálfsstjórnarmöguleika einstakra svæða og ríkja, breyta framsalsreglum og öðru slíku og draga úr brottkasti sem er landlægt innan Evrópusambandsins.

Ég verð því að segja að ég tel, eins og ég sagði áðan í andsvari við hv. þingmann, að engin leið sé betri til að fá úr því skorið hvort þessar undanþágur eða sérlausnir, varanlegar eða hversu varanlegar, séu líklegri en sú að sjá niðurstöður samninga. Og ég skil ekki af hverju það má ekki. Ég skil ekki af hverju það er hættulegt að fá þá niðurstöðu á borðið þannig að menn geti tekið afstöðu til hennar eins og hún liggur fyrir en ekki vegna einhverra getgátna sem koma fram í skýrslum (Forseti hringir.) sem geta verið alveg í báðar áttir um að eitthvað sé (Forseti hringir.) líklegt eða ólíklegt. Um það vitum við ekki.