143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:57]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Evrópusambandið er merkilegt fyrirbæri. Upphaf þess má rekja til stofnunar Kola- og stálbandalags Evrópu árið 1951. Með stofnun þess varð til sameiginlegur markaður og yfirstjórn fyrir kol og stál í stofnríkjunum sex en þau voru Ítalía, Belgía, Vestur-Þýskaland, Frakkland, Holland og Lúxemborg. Þannig ákváðu ríkin sex að deila með sér fullveldi á afmörkuðu sviði. Þetta gerðu þau til að styrkja sig í sessi pólitískt og efnahagslega og skapa grunn að friði og stöðugleika í Evrópu.

Árið 1957 ákváðu ríkin að víkka út samstarfið með undirritun sáttmálanna um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu og Kjarnorkubandalags Evrópu. Efnahagsbandalagið lagði grunninn að sameiginlegum markaði. Á sjöunda áratugnum héldu aðildarríkin áfram að útfæra sameiginlega stefnu á sviðum tengdum utanríkisviðskiptum og landbúnaði.

Nú eru ríki Evrópusambandsins orðin 28 og íbúar þess rúmlega 500 milljónir. Evrópusambandið fékk nafn sitt formlega árið 1993 þegar Maastricht-sáttmálinn var staðfestur. Nýjasti sáttmáli Evrópusambandsins, Lissabon-sáttmálinn, var síðan staðfestur árið 2009. Helstu stofnanir sambandsins eru Evrópuþingið, framkvæmdaráðið, ráðherraráðið, leiðtogaráðið, Evrópudómstóllinn og Seðlabanki Evrópu.

Af þessari örstuttu sögulegu yfirferð má sjá að Evrópusambandið er vel skipulagt, byggir á sterkum grundvallarstofnunum og á sér áratugalanga og merkilega sögu. Tvær heimsstyrjaldir höfðu litað Evrópu blóði með skömmu millibili þegar sambandið var stofnað og því var þetta viðskipta- og friðarbandalag mikið framfaraskref á þeim tíma fyrir þjóðir Mið-Evrópu.

Í lok níunda áratugarins og á þeim tíunda fóru múrar járntjaldsins að falla hver á eftir öðrum. Nýfrjáls ríki Austur-Evrópu sáu tækifæri í að verða hluti af Evrópusambandinu. Fyrir þau var það einnig mikið framfaraskref, skref í átt til nútímavæðingar, friðar og lýðræðis. Ríki Suður-Evrópu sóttust einnig eftir aðild því að þau sáu hag sínum betur borgið innan sambandsins en utan þess.

En hvað með litla Ísland? Hvernig fellur það inn í þessa stóru Evrópumynd? Sögulegar forsendur okkar eru í fyrsta lagi allt aðrar en núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins. Við höfum ekki verið beinir þátttakendur í heimsstyrjöldunum eins og ríki Mið-Evrópu, við vorum ekki undir hæl kommúnismans í áratugi með þeirri kúgun sem því ástandi fylgdi. Hér hafa fasísk stjórnvöld ekki drottnað eins og t.d. á Ítalíu og Spáni og hér hafa ekki verið háðar blóðugar borgarastyrjaldir. Samfélag okkar byggist á sterkri lýðræðishefð en því er ekki að skipta í sumum ríkjum Evrópusambandsins.

Ísland er með sterka stöðu í alþjóðlegu samstarfi. Við eigum aðild að NATO og EFTA og höfum átt aðild að þeim í áratugi og átt einkar gott samstarf við aðildarríki Evrópusambandsins. Það góða samstarf mun þessi ríkisstjórn halda áfram að rækta. Íslendingar hafa gert fjölda fríverslunarsamninga gegnum EFTA og einnig beint við önnur ríki, t.d. Kína, þannig að við stöndum vel að vígi í samstarfi þjóðanna.

Landfræðilega erum við einnig í annarri stöðu en önnur ríki Evrópusambandsins, við erum langt í burtu frá meginlandi Evrópu, við erum mjög norðarlega og síðast en ekki síst erum við eyja. Við byggjum tilvist okkar að stórum hluta á fiskveiðum og má segja að við byggjum velferð okkar og velsæld að mestu leyti á þeirri auðlind. Önnur ríki Evrópusambandsins byggja afkomu sína ekki að svo miklu leyti á fiskveiðum.

Ísland er víðáttumikið land. Hér framleiðum við hreina matvöru og getum framleitt orku bæði úr fallvötnum og jarðhita. Tilraunir hafa verið gerðar með virkjun sjávarorku við strendur landsins sem lofa góðu og hugsanlega eigum við gas- og olíuauðlindir. Hér er nóg af hreinu vatni til ræktunar og manneldis þannig að við Íslendingar erum sérlega vel búin til framtíðar. Þetta er hins vegar ekki staðan í Evrópu. Þar skortir menn landrými. Þar þurfa menn að framleiða meira af matvörum fyrir ört vaxandi fólksfjölda. Þar neyðast menn til að nýta t.d. kjarnorku, gas og olíu og fleiri slíka orkugjafa sem falla ekki undir skilgreininguna á grænni orku. Skortur á landrými og orku og möguleikum til matvælaframleiðslu eru vaxandi vandamál í Evrópu, ekki á Íslandi.

Við erum 300 þúsund, íbúar Evrópusambandsins eru 500 milljónir, þannig að segja má að við komum úr allt annarri átt. Forsendur okkar eru aðrar og hagsmunir okkar eru aðrir. Þarfir okkar eru ólíkar og harla ólíklegt að tekið verði fullnægjandi tillit til þeirra og við munum hafa sáralítil áhrif ef við göngum í Evrópusambandið.

Niðurstaða mín er því sú að við eigum ekki heima innan Evrópusambandsins. En aðstæður geta breyst. Eins og ég sagði áðan er Evrópusambandið í örri þróun. Ísland er líka í örri þróun. Hver veit hvernig staðan verður eftir tíu, 20 eða 50 ár? Við vitum t.d. ekki hvort við munum byggja velferð okkar að mestum hluta á sjávarútvegi þá eins og við gerum nú. Allt er breytingum háð.

Þar sem ég á sæti í utanríkismálanefnd Alþingis hef ég verið svo heppin að fá að hitta höfunda skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Á fundum nefndarinnar fengum við tækifæri til spyrja fræðimennina spurninga sem hafa brunnið á okkur og ég leyfi mér að segja, herra forseti, samfélaginu öllu. Flestar spurningarnar hafa snúist um gerð Evrópusambandsins, undanþágur, sérlausnir og sjávarútveginn. Getum við fengið að kíkja í pakkann? Þetta er það sem fólk vill fá að vita. Við líka.

Þegar umræðan barst að sérlausnum og undanþágum voru menn almennt sammála um að slíkt væri tæknilega og fræðilega mögulegt en þó yrði þar verulega á brattann að sækja. Fordæmi fyrir varanlegum undanþágum í sjávarútvegi eru ekki til staðar en hugsanlega væri hægt að finna einhvers konar sérlausnir varðandi einstök atriði. Það er heldur ekki hægt að útiloka fullkomlega að Evrópusambandið viðurkenni sérstöðu Íslands sem ríkis sem byggir afkomu sína að stærstum hluta á fiskveiðum, en slík niðurstaða er harla ólíkleg. Menn hafa tekið Möltu sem dæmi í þessum efnum en það dæmi er ekki sambærilegt miðað við stöðu okkar Íslendinga. Við gætum staðið utan við sjávarútvegsstefnu ESB ef öll 28 aðildarríkin mundu samþykkja það, en það er þá þeirra að ákveða og það er líka þeirra að breyta þeirri ákvörðun síðar ef þau kjósa svo, vegna þess að allt er jú breytingum háð.

Grundvallarreglur Evrópusambandsins liggja fyrir. Landbúnaðar-, viðskipta- og sjávarútvegsstefna er sameiginleg innan sambandsins. Þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríkin samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þeirra og stefnu. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild að sambandinu. Ekki er um að ræða könnunarviðræður eða samningaviðræður samkvæmt skilningi Evrópusambandsins, og hér vísa ég í bls. 32 í skýrslunni.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að grundvallarbreytingar hafi orðið á umsóknarferlinu síðastliðin ár. Skilyrðin voru hert til muna þegar ríki frá Suður- og Austur-Evrópu fóru að banka upp á hjá Evrópusambandinu. Mikilvægt er að öll ríki sem sækja um aðild njóti jafnræðis, aðildarferlið er eins hjá öllum. Evrópusambandið setur stundum fram opnunarviðmið en alltaf lokunarviðmið við hvern einasta kafla sem tekinn er fyrir. Um samningaviðræður er ekki að ræða heldur skýrt afmarkað ferli þar sem Evrópusambandið setur reglurnar, enda er það rökrétt þar sem ríki sækja um aðild að Evrópusambandinu en ekki öfugt.

Tímabundnar sérlausnir eru mögulegar, eins og áður segir, en það verður að teljast afar óraunsætt að ætla að Íslendingar fái varanlegar undanþágur frá meginreglum Evrópusambandsins, og nú vísa ég í bls. 37 í skýrslunni.

Þá nefna sumir Noreg sem dæmi um þjóð sem hafnaði aðild að Evrópusambandinu tvisvar sinnum, í seinna skiptið árið 1994. Getum við ekki gert slíkt hið sama nú, klárað aðildarviðræður, kíkt í pakkann og kosið svo líkt og Norðmenn gerðu? Þessi spurning kom að sjálfsögðu upp á fundum nefndarinnar með sérfræðingunum og svarið sem við fengum: Það er af sem áður var. Evrópusambandið hefur breyst mikið síðastliðin 20 ár. Slíkar könnunarviðræður eru ekki lengur í boði, enda má geta þess að þegar aðildarviðræðum við Noreg lauk kom í ljós að varanlegar undanþágur voru ekki í boði varðandi fiskveiðarnar eins og Norðmenn sóttust eftir.

Varðandi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins almennt er rétt sem hefur komið hér fram að það hefur verið að þróa sína stefnu en verkefni Evrópusambandsins eru önnur en okkar Íslendinga og vandamálin sem það glímir við eru mjög ólík okkar. Heimildir Evrópusambandsins til stjórnar fiskveiða eru mjög víðtækar, þær snúast ekki bara um ákvörðun á heildarafla og sameiginlega sjávarútvegsstefnan mundi hafa mjög mikil áhrif á sjávarútveg okkar. Þó að við fáum einhvers konar sérlausnir er ekkert varanlegt í þessum heimi. Það kemur einnig fram víða í skýrslunni.

Í þessu samhengi vil ég einnig nefna að það kostar mikla peninga að vera í aðildarviðræðum og einnig að vera aðili að Evrópusambandinu. Útgjöld vegna sjávarútvegs og landbúnaðar eru mikil þar sem stefnan er sameiginleg. Þá spyr maður sig líka: Er það hagkvæmt fyrir svona smáþjóð eins og okkur að leggja auð sinn í púkk hjá milljónasamfélagi? Ég held ekki, en við höfum ólíkar skoðanir á því.

Mér sýnist að ég þurfi að fara að ljúka máli mínu en í lokin vil ég segja þetta: Það er mjög mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga fái hefðbundna og góða þinglega meðferð og ég er ánægð með þingsalinn eins og hann er hér í dag. Góðar umræður, takk fyrir það.

Ég vona að tillagan komist sem fyrst til umfjöllunar hjá utanríkismálanefnd þar sem málið mun fá að (Forseti hringir.) þroskast og þróast og að því loknu fer síðari umr. fram í þingsal.

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður á þess kost að tala öðru sinni í umræðunni ef þörf gerist.)