143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:17]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hv. þingmaður verður að afsaka að ég náði ekki alveg millispilinu í spurningunum og vona að hv. þingmaður endurtaki þá spurninguna.

En varðandi óvissuna með sérlausnir og sérstaklega þá varðandi sjávarútveginn er það bara mjög erfitt og snúið mál. Hagsmunirnir eru gríðarlega miklir. Það má gagnrýna þá málsmeðferð að sumu leyti sem málið hefur fengið hingað til. Þingsályktunartillagan kom mjög snemma fram, áður en skýrslan hafði að fullu verið rædd. Þess vegna segi ég enn og aftur að þegar þetta mál kemst til nefndar og fólk fer betur yfir það þá vona ég að umræðan komist upp á hærra og málefnalegra plan. Þetta er snúið mál.

Mig langar, með leyfi forseta, til að lesa upp úr skýrslunni á bls. 65 varðandi niðurstöðuna sem þar er dregin fram í samantektinni:

„Eins og áður greinir eru fordæmi fyrir því að unnt [sé] að ná fram tímabundnum undanþágum eða jafnvel annarri lagasetningu sambandsins í þágu íslenskra hagsmuna ef þær eru vel rökstuddar. Slíkar undanþágur haldast þó aðeins þann tíma sem þeim er markaður og/eða þar til breyting kann að vera gerð á viðkomandi löggjöf sambandsins. Varast ber að leggja mikið upp úr yfirlýsingum sem fylgja kunna aðildarsamningi a.m.k. að því er lögfræðilegt gildi þeirra varðar.“

Samkvæmt þessu er þetta mjög veikt og að mínu mati er mjög erfitt að byggja framtíð þjóðarinnar á slíkum sérlausnum eða undanþágum eða hvað menn vilja kalla það.