143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið en ég er enn svolítið ringlaður. Skilningur minn er sá að formleg svör frá Evrópusambandinu hafi gert það skýrt að það sé engin krafa frá Evrópusambandinu um að við annaðhvort slítum eða höldum áfram. Við eigum alveg að geta gert hlé, enda hafa margar aðrar þjóðir gert það. Ég veit ekki til þess að það sé eitthvert stórkostlegt mál fyrir utan það að ég velti fyrir mér hvað í ósköpunum Evrópusambandið ætti að gera. Slíta viðræðunum við okkur? Væri það æðislegt vandamál að mati hv. þingmanns?

Hvað sem því líður tek ég eftir því að hv. þingmaður virðist vera sólginn í meiri upplýsingar og meiri umræður. Þingsályktunartillaga Pírata, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar og önnur þingsályktunartillaga sem Vinstri grænir hafa lagt fram miða einmitt að því að það sé hægt að halda þessa umræðu og leyfa þjóðinni, hvort sem það er við sveitarstjórnarkosningar eða á einhverjum öðrum tímapunkti, að gefa þau skilaboð sem þjóðin vill gefa. (Forseti hringir.) Þá getur kannski næsta ríkisstjórn og næsta þing á næsta kjörtímabili (Forseti hringir.) tekið ákvörðun með fullu lögmæti. Ég skil ekki hvers vegna hv. þingmaður mundi ekki styðja slíka tillögu.