143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:28]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Þegar maður skoðar ræður sem ritaðar voru síðasta sumar sem Barroso flutti kemur þetta mjög skýrt fram. Það er óumdeilt að þetta var sagt, þeir kalla eftir svörum um hvert ríkisstjórnin ætlar að fara í þessu stóra máli. Í því hvernig sendiherra Evrópusambandsins talar nú er eins og hv. þingmaður benti á allt annar tónn og skýringin sem ég get gefið er sú að hann er að tala inn í það pólitíska landslag sem er hérna núna. Það er akkúrat vegna þess að hagur Evrópusambandsins er að við séum ekki að slíta. Það virkar ekki vel út á við fyrir þá að við slítum aðildarviðræðum við sambandið eða réttara sagt drögum umsóknina til baka.

Ég legg aftur áherslu á að hin þinglega meðferð er bara rétt að byrja hér með fyrri umr. Síðan tekur nefndin við og að lokum fer málið í síðari umr. í þingsal. (Forseti hringir.) Eins og ég sagði áðan mun þetta skýrast frekar með betri kynningu á skýrslunni og ég held að þetta ætti að duga okkur svo við förum sátt frá borðum.