143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú vitum við að evran er missterk eftir því hvaða ríki er um að ræða í Evrópusambandinu. Hún bjargaði ekki Írum í þeirra kreppu.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess, ef niðurstaðan yrði sú að Íslendingar mundu hugsanlega fella einhvern samning um inngöngu í Evrópusambandið, hvernig hún sæi þjóðfélagið og hagkerfið þróast í framtíðinni með okkar gjaldmiðil.

Það hefur komið fram að við þurfum að ná niður verðbólgu og búa við mikinn stöðugleika áður en við gætum tekið upp evru. Værum við þá ekki bara í ansi góðum málum þegar við værum þar stödd? Eru þeir erfiðleikar sem við höfum glímt við undanfarin 10–20 ár varðandi verðbólgu og háa vexti ekki fyrst og fremst innanhússmál á Íslandi og verkefni þeirra hægri stjórna sem hafa verið hér undanfarna áratugi?